Gleðilegt sumar

Nú er sumar nýgengið í garð og má þá rifja upp að á fyrsta vetrardegi síðastliðnum, 21. október 2017, fór fram fyrsta ráðstefna félagsins Máls og sögu (1. Ólafsþing) í samvinnu við Málvísindastofnun HÍ. Ráðstefnan heppnaðist mjög vel og var mæting með ágætum. Hér fyrir neðan er mynd sem Jón Axel Harðarson tók af nokkrum ráðstefnugestum.

Nú líður að lokum fyrsta starfsárs félagsins og er stefnt að því að halda aðalfund á næstu vikum og verður hann auglýstur innan skamms (óstaðfest dagsetning er 12. maí).

Við í stjórninni erum einnig farin að huga að næsta Ólafsþingi sem stefnt er að því að halda 27. október nk. Okkur langar að nota tækifærið og minnast þess að á árinu verða 200 ár liðin frá útgáfu verðlaunaritgerðar Rasmusar Rasks, Undersøgelse om det gamle nordiske eller islandske Sprogs Oprindelse, árið 1818, en sama ár komu einnig út í Stokkhólmi útgáfur hans á Eddukvæðum og Snorra-Eddu ásamt málfræðiritgerðunum. Á næstunni verður sent út ráðstefnukall þar sem sérstaklega verður óskað  eftir ágripum að erindum um Rask og hugðarefni hans, en rúm verður á þinginu fyrir erindi af öðru tagi líka.

Aðalsteinn Hákonarson

Fyrsti vetrardagur 2017. Þátttakendur á 1. Ólafsþingi í hádegishléi.
Fyrsti vetrardagur 2017. Þátttakendur á 1. Ólafsþingi í hádegishléi.