Ráðstefnukall fyrir Ólafsþing 2018

Ólafsþing, ráðstefna félags um söguleg málvísindi og textafræði, verður haldið í annað sinn laugardaginn 27. október 2018.

Að þessu sinni er ætlunin að minnast þess að nú í ár eru nákvæmlega tvær aldir liðnar frá því að verðlaunaritgerð Rasmusar Kristians Rasks, Undersøgelse om det gamle nordiske eller islandske Sprogs Oprindelse, var birt. Sama ár, þ.e. 1818, gaf hann einnig út Eddukvæði og Snorra-Eddu ásamt málfræðiritgerðunum. Þess vegna er óskað sérstaklega eftir erindum um Rask og áhugamál hans. Tekið skal fram að ekki er endilega ætlast til þess að sjálfur Rask sé í forgrunni erinda, heldur má gjarnan fjalla um eitthvert hugðarefna hans sem að sönnu voru margvísleg.

Einnig er mögulegt að flytja erindi um önnur efni sem tengjast sögulegri málfræði íslensku, norrænna, germanskra eða annarra indóevrópskra mála, enn fremur handritafræði, rúnafræði, bragfræði, nafnfræði eða goðafræði svo eitthvað sé nefnt.

Þeir sem hafa hug á að halda fyrirlestur eru beðnir um að senda vinnutitil og útdrátt um efnið (200–300 orð) til Aðalsteins Hákonarsonar (<adh3@hi.is> eða <adalsteinnh@hi.is>) eigi síðar en 15. september 2018.

Ályktun

Upp á síðkastið hefur víða orðið vart við ýmiss konar nýbreytni í máli sem er ætlað að stuðla að kynhlutleysi. Er þar skemmst að minnast breytinga á titlum innan Stúdentaráðs Háskóla Íslands en formaður þess kallast nú forseti, nefndarmenn nefndarmeðlimir og formennska heitir forsæti. Breytingarnar snúast einkum um að hverfa frá orðinu maður „sem er yfirleitt tilvísun í karlkyn“ að því er segir í rökstuðningi ráðsins.

Stjórn Máls og sögu varar við breytingum af þessu tagi enda eru á þessu máli fleiri hliðar en margir gera sér grein fyrir. Til fróðleiks má benda á hugleiðingu frá því fyrr í vetur um ýmis nýmæli í Ríkisútvarpinu eftir Katrínu Axelsdóttur. Pistillinn er birtur hér á síðunni með góðfúslegu leyfi höfundar.

Stjórn Máls og sögu

—–

Að undanförnu hefur í Ríkisútvarpinu orðið vart við ýmis nýmæli sem eiga að stuðla að kynhlutleysi. Þrennt hefur líklega vakið mesta athygli: hvorugkyn fleirtölu þar sem áður tíðkaðist karlkyn fleirtölu, ósamræmi milli nafnorðs og lýsingarorðs og loks kosningin um „Manneskju ársins“ (sem áður hét „Maður ársins“). Um þessi atriði hafa spunnist líflegar umræður víða á samfélagsmiðlum og mannamótum og sýnist sitt hverjum. Nýmælin verða hér reifuð stuttlega, nokkur dæmi sýnd og einnig dæmi um þær röksemdir (með og á móti) sem heyrst hafa.

1) Hvorugkyn fleirtölu má nú stundum sjá í stað karlkyns fleirtölu, að því er virðist. Í a) og b) eru dæmi úr nýlegum fyrirsögnum á ruv.is:

a) Fjögur dóu í skotárás í Kaliforníu (15.11. 2017)

b) 38 tekin af lífi í Írak (14.12. 2017)

Ef þarna var um að ræða fólk af báðum kynjum (og fréttamönnum var það kunnugt og þeir vildu sérstaklega koma kynjasamsetningu hópsins á framfæri) er kannski ekkert um þær að segja. En ef fréttamönnunum var á þessum tíma ekki kunnugt um kyn fólksins hefði skv. málvenju verið eðlilegt að nota karlkyn: Fjórir dóu …; 38 teknir af lífi …. Karlkyn hefur haft tvö meginhlutverk í íslensku. Það vísar annars vegar til nafnorða í karlkyni eða karlkyns einstaklinga og hins vegar til óþekktra/ótilgreindra manna (sem geta verið af hvoru kyninu sem er). Ef erlendir fréttamiðlar frá umræddum tíma eru skoðaðir er ekkert sem bendir til þess að í a) og b) hafi verið um að ræða hópa fólks af báðum kynjum. Þeir sem sömdu fyrirsagnirnar í a) og b) virðast því hafa ákveðið að nota hvorugkyn um það sem var óþekkt eða ótilgreint og í því felast nýmælin.

Þetta veldur nokkrum vandræðum. Sumir skilja fyrirsagnirnar eins og fréttamennirnir ætluðust líklega til, aðrir túlka þetta eins og hefðin býður. Fréttamenn hafa ekki heldur allir sama háttinn á. Sumir fréttamenn nota karlkyn áfram um ótilgreindan hóp (t.d. einn fréttamaður Ríkisútvarpsins sem skrifaði um téða skotárás degi fyrr á ruv.is með fyrirsögninni Þrír létust í skotárás í Kaliforníu). Fyrirsögninni í a), Fjögur dóu …, var síðar breytt í Fjórir dóu …  Reyndust öll fórnarlömbin vera karlar? Eða komst einhver andsnúinn nýmælunum í tölvuna og breytti þessu? Þetta er svolítið ruglingslegt. Ekki bætir úr skák að til eru þeir sem finnst eitthvert hvorugkynsnafnorð hljóta að búa að baki orðalagi eins og í a) og b), t.d. börn.

Sumir segja nú samt að þetta sé þörf og tímabær breyting — karlkyn notað á þennan hlutlausa hátt útiloki konur eða beini sjónum fólks frekar að körlum. Breytingin venjist vel og gangi vísast hratt yfir; örlítill ruglingur um tíma skipti í raun litlu í hinu stóra samhengi. Á móti má segja að það sé alveg óvíst að hún gangi hratt og snurðulaust fyrir sig. Ríkisútvarpið þyrfti að fá alla starfsmenn sína og alla aðra fjölmiðla til liðs við sig og vitaskuld skólakerfið líka. Þetta þyrfti jafnframt rækilega kynningu meðal almennings ef vel ætti að takast. Ekki verður séð að málið hafi verið kynnt svo að vel sé. Þá er ekki gefið að breytingin eigi eftir að njóta stuðnings meirihlutans. Það kynnu að renna tvær grímur á fólk þegar það áttar sig á að málshættir á borð við Margur verður af aurum api og Oft er gott það er gamlir kveða gætu orðið óviðeigandi. Og Helgi Björns neyðist til að hætta að spyrja hvort það séu ekki allir sexý. Meginþættir íslenskrar málstefnu eru efling og varðveisla. Ekki verður annað séð en að nýmælin í a) og b) fari í bága við varðveislusjónarmiðið. Það er varla hlutverk Ríkisútvarpsins að brydda upp á slíkum nýjungum.

2) Ósamræmi milli nafnorðs og lýsingarorðs má sjá í þessum fyrirsögnum á ruv.is (sama ósamræmi má sjá í fréttunum sjálfum þannig að þetta eru varla lyklaborðsglöp):

c) Skólastjóri Barnaskólans hreinsuð af ásökunum (16.7. 2017)

d) Kennari leidd út í járnum (10.1. 2018)

Skólastjórinn og kennarinn sem hér um ræðir eru konur. Af þeim sökum hefur fréttamönnunum hér þótt eðlilegra að hafa lýsingarorðin í kvenkyni (hreinsuð, leidd) en ekki karlkyni (hreinsaður, leiddur) til samræmis við nafnorðin skólastjóri og kennari. Raunkyn og málfræðilegt kyn vegast hér á (eins og stundum er auðvitað í íslensku) og fréttamennirnir láta raunkynið hafa vinninginn. Þessi notkun stríðir hins vegar gegn málvenju enda hefur það verið meginregla í íslensku að lýsingarorð beygist í kyni, tölu og falli með því nafnorði sem þau eiga við og þetta hefur verið kennt í skólum. Meginþættir íslenskrar málstefnu eru, eins og áður segir, efling og varðveisla. Nýmælin í c) og d) hljóta að teljast brjóta í bága við varðveislusjónarmiðið.

3) Heiti kosningarinnar „Maður ársins“ á Rás 2 var árið 2017 látið víkja fyrir „Manneskja ársins“. Kosningin hafði borið gamla heitið í 28 ár og breytingin fór varla fram hjá neinum enda rækilega auglýst. Þetta mun hafi verið rökstutt þannig að orðið maður væri ekki eingöngu notað um tegundarheitið Homo sapiens sapiens heldur líka um karla; talið var að síðari merkingin væri fólki almennt ofar í huga.

Þessu tóku margir fagnandi, einkum konur sem gáfu jafnvel yfirlýsinguna „ég er ekki maður“. Meiri líkur væru með þessu móti á að konur yrðu sýnilegri í kosningunni. Aðrir voru ósáttir, þar á meðal fjölmargar konur. Bent var á að þetta stangaðist á við hugmyndir þeirra sem börðust með slagorðinu „konur eru líka menn“ eða aðhylltust það. Enn aðrir voru andsnúnir breytingunni því að þeim var í nöp við orðið manneskja. Nokkrum í þessum hópi fannst það einfaldlega ljótt. Öðrum hafði verið kennt að það væri dönskusletta (sem það er reyndar ekki þótt vissulega sé það afar sjaldgæft í fornum ritum, þar virðist það nær eingöngu koma fyrir í þýðingum, skv. seðlasafni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn). Þar að auki væri orðið einkum notað í neikvæðu samhengi. Þá var bent á að það væri órökrétt að ýta á þennan hátt út orðinu maður en halda í orð eins og mannréttindi og mannúð, sambönd á borð við fjöldi manns og málshætti eins og Maður er manns gaman og Batnandi manni er best að lifa. Þarna lifði orðið maður góðu lífi í sinni víðari merkingu og því þá ekki áfram í „Maður ársins“? Loks var nefnt að í sumu samhengi væri orðið manneskja nær eingöngu notað um konur: Hvað er að þér, manneskja? Hvert er manneskjan að fara? Orðið manneskja hefði því sambærilegan annmarka og orðið maður í heiti kosningarinnar.

Að nota manneskja í samhengi þar sem maður var áður notað brýtur vitaskuld ekki í bága við íslenska málstefnu, bæði orðin eru til í merkingunni ‘mannvera’. En bent hefur verið á að breytinguna megi skilja þannig að eitthvað sé athugavert við orðið sem var skipt út (orðið maður átti sér þarna áratuga sögu). Þannig sé hætta á að menn taki að forðast að nota það um bæði kynin.

Ríkisútvarpið er mikilvæg fyrirmynd um málfar. Með breytingum í átt að kynhlutleysi hafa sumir starfsmenn Ríkisútvarpsins tekið upp ný viðmið sem fáum eru þó mjög töm. Margir hafa áhyggjur af því að brátt verið litið niður á tungutak þeirra sem geta ekki fylgt (eða vilja ekki fylgja) hinum nýju viðmiðum; stéttskipt málfar hafi ekki verið áberandi hér á landi en með hinum nýja sið kunni það að breytast.

Eins og sjá má snúast rökin með breytingunum um tilfinningar: sumum finnst hefðbundið orðalag útilokandi og þarna hefur verið reynt að bregðast við því. Að baki nýmælunum í Ríkisútvarpinu býr sannarlega góður hugur. En ef fylgifiskar nýmælanna eru misskilningur og stéttbundið málfar er þetta nokkuð dýru verði keypt.

Aðalfundur Máls og sögu 2018

Aðalfundur Máls og sögu 2018 verður haldinn laugardaginn 12. maí nk. kl. 12:30 í safnaðarheimili Neskirkju við Hagatorg.

Dagskrá:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
    • Stjórnin leggur til að breyta 5. gr. laga félagsins á þann veg að 1. dagskrárliður aðalfundar verði „Kosning fundarstjóra“, enda megi gera ráð fyrir að ritari félagsins gegni hlutverki fundarritara á aðalfundum.
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kjör stjórnar
  7. Önnur mál

Eftir aðalfund, kl. 13:15, mun dr. Haukur Þorgeirsson flytja fyrirlestur sem hann nefnir:

Orðalagslíkindi og aldur Eddukvæða

Aldur Eddukvæða hefur verið þrætuepli fræðimanna öldum saman og ýmsum röksemdum hefur verið beitt. Eitt sem litið hefur verið til eru tilfelli þar sem sama orðalag kemur fyrir í fleiri en einu kvæði og er það oft túlkað svo að eitt kvæði hafi fengið að láni frá öðru. Annað kvæðið er þá talið lánveitandinn og þar með eldra. Hitt kemur þó einnig til greina að sama orðalag hafi komið fyrir í fleiri kvæðum sem nú eru glötuð og að líta megi á það sem formúlu eða almenningseign. Þess mætti geta til að kvæði sem ort eru á svipuðum tíma deili gjarnan orðalagi og mætti nota þá hugmynd til að greina aldur kvæða. Í erindinu er gerð tilraun með slíka aldursgreiningu og hún borin saman við málsögulegar röksemdir.

Haukur Þorgeirsson er rannsóknardósent við handritadeild Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Fyrirlesturinn er öllum opinn.