Ráðstefnukall fyrir Ólafsþing 2018

Ólafsþing, ráðstefna félags um söguleg málvísindi og textafræði, verður haldið í annað sinn laugardaginn 27. október 2018.

Að þessu sinni er ætlunin að minnast þess að nú í ár eru nákvæmlega tvær aldir liðnar frá því að verðlaunaritgerð Rasmusar Kristians Rasks, Undersøgelse om det gamle nordiske eller islandske Sprogs Oprindelse, var birt. Sama ár, þ.e. 1818, gaf hann einnig út Eddukvæði og Snorra-Eddu ásamt málfræðiritgerðunum. Þess vegna er óskað sérstaklega eftir erindum um Rask og áhugamál hans. Tekið skal fram að ekki er endilega ætlast til þess að sjálfur Rask sé í forgrunni erinda, heldur má gjarnan fjalla um eitthvert hugðarefna hans sem að sönnu voru margvísleg.

Einnig er mögulegt að flytja erindi um önnur efni sem tengjast sögulegri málfræði íslensku, norrænna, germanskra eða annarra indóevrópskra mála, enn fremur handritafræði, rúnafræði, bragfræði, nafnfræði eða goðafræði svo eitthvað sé nefnt.

Þeir sem hafa hug á að halda fyrirlestur eru beðnir um að senda vinnutitil og útdrátt um efnið (200–300 orð) til Aðalsteins Hákonarsonar (<adh3@hi.is> eða <adalsteinnh@hi.is>) eigi síðar en 15. september 2018.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *