22. mars 2019: Fyrsti vorfyrirlestur Máls og sögu – Jón Axel Harðarson

Föstudaginn 22. mars nk. kl 15 mun Jón Axel Harðarson prófessor í íslenskri málfræði við HÍ halda erindi sem hann nefnir og lýsir svo:

Veikar sagnir eftir 3. flokki í forníslensku og beygingarþróun þeirra frá frumgermönsku

Yfirgnæfandi meirihluti sagna sem tilheyrði þessum sundurleita flokki í frumgermönsku hafði ástandsmerkingu. Þær skiptast í tvo undirflokka: (1) sagnir leiddar af sögnum eða sagnrótum, (2) sagnir leiddar af lýsingarorðum eða nafnorðum. Í síðari flokknum voru einnig sagnir sem höfðu faktitífa merkingu. Auk ofangreindra sagna hafði 3. flokkur að geyma sagnir sem upprunalega mynduðu tvöföldunarnútíð.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um beygingarþróun umræddra sagna frá frumgermönsku til forníslensku og verður þar jafnt horft til hins reglulega beygingardæmis og beygingardæma óreglulegu sagnanna hafa, segja og þegja.

Staðsetning: Árnagarður við Suðurgötu, stofa 303


Á síðasta aðalfundi félagsins var ákveðið að stefnt skyldi að því að standa fyrir nokkrum fyrirlestrum á vormisseri. Þeir verða haldnir á föstudögum (þó ekki í hverri viku) kl. 15 í stofu 303 í Árnagarði. Að loknum fyrirlestri og umræðum eftir hann geta þeir sem vilja farið í Stúdentakjallarann og spjallað saman yfir ölglasi eða annarri hressingu.

Vonast er til að sem flestir sjái sér fært að sækja fyrirlestrana og blanda geði við félagsmenn og aðra áhugamenn um sögulega málfræði og textafræði. Þeir sem hug hafa á að flytja erindi á vegum félagsins geta haft samband við formann (Aðalstein Hákonarson, adh3[hjá]hi.is).

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *