3. Ólafsþing 2019 — ágrip erinda

Kristján Árnason (10:00–10:30)

Um Craigieslögmál í norrænum kveðskap

Mörg þau „lögmál“ sem komist hafa inn í handbækur í málfræði og bragfræði eru alls ekki nein lögmál í þeim skilningi að þar sé fylgt því sem fræðimódelin „spá“, heldur er um að ræða undantekningar frá því sem við hefði mátt búast;  módelin ráða ekki við gögnin nema með sérstökum neðanmálsgreinum eða nánari útskýringum. Hér má nefna Sieverslögmál, að mér sýnist Kaluzaslögmál i enskri bragfræði, og Kuhnslögmálin frægu. Eitt af þessum lögmálum er Craigieslögmál, sem segir að í fjórðu stöðu í skáldaháttum eins og kviðuhætti og dróttkvæðum hætti megi ekki standa nafnyrði með þungu (löngu) áhersluatkvæði, enda þótt hið viðtekna módel Eduards Sievers geri beinlínis ráð fyrir þeim möguleika. Ef taka á greiningarkerfi Sievers alvarlega sem líkan um bragnotkun er þessi regla eins konar „spýta í kross“, sem er negld utan á kenningagrindina svo að hún megi hanga uppi. Lögmálið hefur ekki fengið eðlilega skýringu á málfræðilegum eða bragfæðilegum grundvalli svo mér sé kunnugt. Í nýrri doktorsritgerð sinni hefur Þorgeir Sigurðsson sett fram greiningu á kviðuhætti sem útrýmir Craigieslögmáli sem undantekningu; lætur það vera hluta af heildarmódelinu. Þorgeir gerir ráð fyrir að fjórða staðan („Craigiestaðan“) sé veik. Hann gengur hins vegar ekki svo langt að leggja til málfræðilega grundaða skýringu á þessum aðstæðum og hvers vegna takmörkunin skilur á milli nafnyrða og sagna. Í fyrirlestri mínum ætla ég að gera tilraun til að túlka hvernig í þessu liggur með vísun til þess sem geta má sér til um málkerfislegar og bragkerfislegar aðstæður. Þetta tekur til lögmála um atkvæðagerð, orðáherslu (misjafnan styrk atkvæða í orðum) og tónfall setningaráherslu (misjafnan styrk orða í orðasamböndum). Ég mun einnig víkja að eðli bragreglna um hrynjandi (sterkar og veikar stöður í bragnum) og um ljóðstafasetningu.


Þorgeir Sigurðsson (10:30–11:00)

Reglan um sterkt atkvæði í vísuorði

Samkvæmt lögmáli Craigies er fjórða og síðasta atkvæði í síðlínum kviðuháttar veikt. Til viðbótar má sýna að næstsíðasta eða þarnæstsíðasta atkvæðið er veikt en ekki bæði [1]. Þetta gildir einnig um forlínur og síðlínur í kvæðum undir reglulegu fornyrðislagi. Þeirra á meðal eru hirðkvæðin Höfuðlausn, Erfikvæði um Magnús berfætt og Sigurðarbálkur, einnig Darraðarljóð og Hymiskviða. Regluna má orða þannig að vísuorð endi annaðhvort á WSW eða SWW. Hér táknar S sterkt atkvæði en W táknar veikt atkvæði. Hér eru S og W atkvæði en ekki bragstöður. Skipting atkvæða í tvo styrkleikaflokka er eins og hjá Kristjáni Árnasyni 1991 [2] og William Craigie 1900 [3].

  • Sterk atkvæði (S) eru alltaf löng. Löng atkvæði í einkvæðum nafnorðum og lýsingarorðum eru alltaf sterk. Smáorð eru sjaldan með sterkum atkvæðum.
  • Öll stutt atkvæði eru veik (W). Löng atkvæði geta einnig verið veik og eru það venjulega þegar þau eru í smáorðum. Beygingarendingar eru alltaf veikar.

Við skiptingu á atkvæðum í stutt og löng má taka tillit til orða- og orðhlutaskila. Hér fyrir neðan nota ég fyrstu 8 línur Darraðarljóða til að skýra regluna. Ég tákna sérhljóð í sterku atkvæði með undirstrikun.

Vítt es orpit fyr val-falli
rifs reiðiský; rignir blóði;
nú’s fyr geirum grár uppkominn
vefr, ver-þjóðar es vinur fylla

Undantekningar frá reglunni eru fáar og flestar þess eðlils að styrkja hana fremur en veikja. Þetta skýri ég í meginhluta þessa erindi.

Tilvísanir:

[1] Þorgeir Sigurðsson. 2019. The unreadable poem of Arinbjǫrn, preservation, meter, and a restored text. Doktorsritgerð frá Háskóla Íslands.

[2] Kristján Árnason. 1991. The rhythms of dróttkvætt and other Old Icelandic metres. University of Iceland, Institute of Linguistics, Reykjavík.

[3] William A. Craigie. 1900. On some points in scaldic metre. Arkiv för nordisk filologi XVI.


Svavar Sigmundsson (11:30–12:00)

Þróun hljóðdvalar í rímnakveðskap

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þá breytingu sem varð á lengd hljóða í íslensku sem nefnd hefur verið hljóðdvalarbreytingin, og sem almennt er talið að hafi orðið upp úr 1500. Björn Karel Þórólfsson skrifaði fyrstur manna rækilega um þessa breytingu í skáldskap í Arkiv för nordisk filologi 1929, og Stefán Karlsson tók upp þann þráð með grein sinni, Gömul hljóðdvöl í ungum rímum, í Íslenskri tungu 1964.

Aðferð Björns var í stórum dráttum sú að kanna hvort þeirri reglu væri fylgt að síðasta ris óstýfðra vísuorða væri langt samkvæmt fornri hljóðdvöl. Undantekningar voru þó samstöfur sem enduðu á löngu sérhljóði, eins og trúa, eða tvíhljóði, eins og sveia og dæi, en slíkar samstöfur voru stuttar, skv. fornum bragreglum. Einnig voru undanteknar samstöfur með upphaflega stuttu sérhljóði sem hafði tvíhljóðast, eins og segi og mega, en þær höfðu orðið langar samstöfur við tvíhljóðun.

Rímur eins og Bósarímur sem ortar voru um 1500 hafa engin frávik frá fornum reglum og sama gildir um ýmsar þær rímur sem Björn Karel gaf út í riti sínu Rímur fyrir 1600. Þar má nefna Hemingsrímur, Lokrur, Griplur, Þrymlur, Völsungsrímur og Herburts rímur.

Þegar kemur að Halli Magnússyni (um 1530–1601) sem orti Vilmundar rímur viðutan, eru örlítil frávik frá fornri hljóðdvöl, aðeins 0,1% frávik, dæmið um rímorðin: hlerra : vera.

Rímur af Flóres og Leó eru eftir Bjarna Borgfirðingaskáld (1560–1640) og Hallgrím Pétursson (um 1614–1674). Bjarni orti rímurnar 1–15 líklega um 1600. Frávik frá fornum reglum eru hjá honum 0,7% hallgrímu rorti rímurnar 16–24 líklega um 1647, en hjá honum eru frávikin 1,8%.

Í Disneyrímum eftir Þórarin Eldjárn frá 1978 eru frávik frá fornum bragreglum 19%.

Í fyrirlestrinum verður því lýst hvernig frávik frá fornum reglum í rímnakveðskap þróast frá því um 1550 fram á okkar daga.


Helgi Skúli Kjartansson (12:00–12:30)

Þegar brageyrað blekkir: Um vísu Egils, Það mælti mín móðir; hvað þar sé einfalt eða óreglulegt og hvað ekki; og hvernig „brageyra“ síðari alda Íslendings skynji þar allt aðra hrynjandi en reglur fornbragarins krefjast.

Vísa Egils, sem mér var kennt að sé svo einföld í formi að hún gæti hugsanlega verið ort af barni. En hvað er einfalt í henni og hvað ekki? Seinni parturinn er að því leyti óvandaður að allar línur hafa sömu hrynjandi. Það er sjálfsagt og eðlilegt að nútímasmekk en greinilegt að fornskáldin forðuðust það. Fyrri parturinn, hins vegar, er alls ekki upp byggður með þeim óreglulega hætti sem “brageyra” nútímamanns skynjar. Heldur er þar fylgt gaumgæfilega ýmsum bragreglum sem við skynjum engan veginn út frá máli og brag seinni tíma.


Haukur Þorgeirsson (13:30–14:00)

Neitanir og aldur Eddukvæða

Í Eddukvæðum koma fyrir ýmsar neitanir. Þar ber að nefna sam-indóevrópsku neitunina ‘ne’, neitunarhenglana –a og –at og atviksorðið ‘eigi’. Þessir neitunarmöguleikar hafa að verulegu leyti tíðkast samtímis enda geta þeir allir komið fyrir í einu og sama kvæðinu, til dæmis í Lokasennu. Eigi að síður má spyrja hvort greina megi einhverja þróun innan Eddukvæðasafnsins þannig að kvæði sem eru fornlegri að öðru leyti noti meira af fornlegum neitunum. Þeirri tilgátu er að nokkru leyti svarað játandi í erindinu en þó með verulegum aðferðafræðilegum fyrirvörum og efasemdum.


Kelsey Page Hopkins (14:00–14:30)

Kerfisvæðing sem kvarði: tillaga að greiningarkerfi fyrir viðskeyti með uppruna í sjálfstæðum orðum

Fræðimenn sem fást við orðmyndunarfræði eru sammála um að helsti munurinn á afleiðslu og samsetningu sé sá að afleidd orð myndist með því að skeyta við stofn bundnu myndani sem gegnir málfræðilegu hlutverki (þ.e. forskeyti eða viðskeyti), en samsetningar samanstandi af tveimur liðum sem geta staðið sjálfstætt sem merkingarbærar einingar. Á undanförnum áratugum hefur töluvert verið skrifað um óljósu skilin milli afleiðslu og samsetningar. Meðal íslenskra athugana sem gerðar hafa verið er grein eftir Þorstein G. Indriðason (2016), sem einblínir á viðskeyti/bundna seinni liði sem tilkomnir eru vegna kerfisvæðingar, sem er ferlið þegar sjálfstæð orð glata upprunalegri merkingu sinni og verða að liðum með málfræðilegt hlutverk. Algeng dæmi um kerfisvædd viðskeyti eru –legur, –rænn, –dómur, –háttur, –skapur og –leikur/-leiki, sem „unnt er að rekja sögulega til sjálfstæðra orða”. Skv. Þorsteini er þó helsta skilyrði þess að viðskeyti geti talist orðið til við kerfisvæðingu að sjálfstætt tilbrigði „sama útlits” sé til í nútímamálinu. Þessi skilgreining útilokar viðskeytin –legur og –rænn frá því að teljast vera kerfisvædd þrátt fyrir að þau séu upprunin í sjálfstæðum orðum.

Í þessum fyrirlestri er gerð tilraun til að leysa þversögnina í greiningu Þorsteins með því að taka mið af sögulegri þróun kerfisvæddra viðskeyta. Gengið er út frá því að kerfisvæðing sé í eðli sínu sögulegt fyrirbæri enda gerist hún yfir lengra tímabil. Þess vegna er sögulegrar athugunar krafist. Lagt er til nýtt greiningarkerfi sem skýrir þessa þróun betur en samtímalegt sjónarhorn. Í fyrsta lagi er kerfisvæðingarferlinu lýst sem kvarða, og spurt hvort viðskeyti sem lifa hlið við hlið í nútímamálinu við sjálfstæð tilbrigði (sbr. –háttur, –leikur o.fl.) séu e.t.v. minna kerfisvædd en þau sem hafa enga samsvarandi sjálfstæða mynd (sbr. –legur og –rænn). Þá verða sögulegar heimildir aðgættar og tilfærð dæmi um viðkomandi orð/liði í mismunandi hlutverkum til að skoða breytingar á m.a. merkingu og formi þeirra yfir tíma, og þar með kortleggja/tímasetja kerfisvæðingu þeirra. Að lokum verður sagt frá greiningum á nokkrum viðskeytum, sem upprunnin eru í sjálfstæðum orðum, sem gerðar hafa verið frá sögulegu sjónarhorni (Alexander Jóhannesson 1927 og 1929, Iversen 1973, Gunnlaugur Ingólfsson 1979, Eiríkur Rögnvaldsson 1987, Jón Axel Harðarsson), í þeim tilgangi að sýna hversu miklu meiri upplýsingar er hægt að fá með sögulegri nálgun.


Margrét Jónsdóttir (14:30–15:00)

Um nafnorðið GRÁP

Nafnorðið gráp er orð á bók, fæstum kunnugt. Það kemur fyrir í mjög gömlum skáldskap. Það votta dæmin úr Lexicon poeticum sem eru 8 að tölu. Hér koma tvö: „grund var grápi hrundin” (Haustlöng (15)). „Hjálm grápi vann hilmir” (Vellekla (12)). Um orðið eru tvö dæmi í ritmálssafni OH, bæði úr bundnu máli. Fleiri heimildir finnast ekki.

Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:273) fjallar um gráp og segir merkinguna vera ‘vindhviða; haglél’ og sé „sennil. leitt af grápa. Sögnin merkir ‘hrifsa til sín, þrífa í’ og hún er merkt sem fornmál. Í Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP) eru fimm dæmi um grápa, öll úr Stjórn í útgáfu Ungers (1862). Hér kemur eitt (bls. 78): hann (ɔ: orrinn) rifsar ok grápar egg undan odrum fuglum.

Uppruni orðsins hefur vafist fyrir fræðimönnum. Óvissan í orðum Ásgeirs Blöndals Magnússonar er athyglisverð þegar hann segir að gráp sé „sennnilega“ leitt af grápa, þ.e. sagndregið.  Ásgeir gerir enga tilraun til að tengja nafnorðið og sögnina saman merkingarlega. Um grápa segir Ásgeir m.a. að hún sé rótskyld grípa.

Í fyrirlestrinum verður þess freistað að varpa einhverju frekara ljósi á uppruna naforðsins. Í því sambandi verður m.a. horft til merkingar þess og sagnarinnar. Ekki verður sagt að líkindin séu mikil; þau blasa a.m.k. ekki við. Athyglisvert er að Ásgeir skuli telja sögnina liggja til grundvallar nafnorðinu. Frekar hefði mátt búast við hinu gagnstæða. Horft verður til skyldra mála í leit að skýringum.


Jón Axel Harðarson (15:30–16:00)

Hitt orðið um ‘konu’ í indóevrópsku

Eftir stuttan inngang um orð sem leidd eru af ie. *sor– ‚kona‘ verður rætt ýtarlegar um indóevrópska orðið um ‘systur’, lat. uxor ‘eiginkona’, ungavest. hāirišī– ‘kona’, myndleturslúv. ašra/i– ‘kona’, ungavest. åŋhairī‑ ‘kona’, hettitísku viðskeytin –šar og ‑(š)šara– og kvenkyn töluorðanna ‘3’ og ‘4’ í indóírönsku og keltnesku. Þá verður yfirlit gefið um þau orð sem tengjast *sor– og endurgera má fyrir indóevrópsku. Loks verður farið nokkrum orðum um breytingu *sor– í kvenkynsviðskeyti.


Katrín Axelsdóttir (16:00–16:30)

Orðasambönd verða til

Sambandið köttur liðugur er af orðasambandagerð eða konstrúksjón þar sem nafnorð stendur á undan lýsingarorði, nafnorðið ber sterka áherslu (og gegnir iðulega hlutverki atviksorðs), lýsingarorðið lagar sig yfirleitt að því sem verið er að lýsa (hún er köttur liðug) og í sambandinu er fólgin einhvers konar líking (hér ‘liðugur eins og köttur’) – nafnorðið er dæmigert fyrir þann eiginleika sem lýsingarorðið vísar til.

Vitað er um allnokkurn fjölda sambanda sem tilheyrir þessari orðasambandagerð; þar á meðal eru forkur duglegur, nökkvi þungur, grjótpáll duglegur og funi bráður. Jafnframt er ljóst að samböndin eru á undanhaldi því að fólk undir miðjum aldri þekkir sjaldnast nokkurt þeirra (Katrín Axelsdóttir 2019a, 2019b). Hins vegar hefur ekkert verið fjallað um aldur og uppruna þessarar orðasambandagerðar og úr því verður reynt að bæta hér.

Orðasambandagerðin virðist ekki eiga sér langa sögu í málinu, elstu tilvik eru frá því snemma á 20. öld en auðvitað kann þetta að vera eldra þótt heimildir hafi ekki fundist. Hvað varðar tilurðina kemur ýmislegt til greina: 1) endurtúlkun samsetts lýsingarorðs með myndhverfu nafnorði í fyrri lið (sbr. lúsiðinn, nautsterkur, ljóngáfaður), 2) blöndun lýsingarorðs við samband myndhverfs nafnorðs og forsetningarliðar (s.s. forkur að dugnaði, grjótpáll að dugnaði) en slík sambönd virðast vera eldri en sambönd á borð við köttur liðugur, 3) brottfelling tengingar úr samanburðarsetningu (s.s. eins og köttur, eins og nökkvi) þannig að eftir standi nafnorðið eitt (köttur, nökkvi) á undan lýsingarorði aðalsetningarinnar (hún er eins og köttur liðughún er köttur liðug). Ekki er víst að öll samböndin sem eru af umræddri orðasambandagerð eigi sér sama uppruna þótt niðurstaðan, mynstrið NAFNORÐ + LÝSINGARORÐ, sé alltaf sú sama.