Ólafsþing 2017

Haukur Þorgeirsson (9:30–10:00)

Afdrif /z/ í vestur-norrænu

Frumgermönsk /z/ varð í norrænu að hljóði sem táknað er /R/ og var aðgreint frá upphaflegu /r/. Hið yngra rúnaletur aðgreinir þessi tvö hljóð og í sænsku hélst aðgreiningin alla víkingaöld og fram á 13. öld á Gotlandi. En í vestur-norrænu féllu hljóðin snemma saman. Rúnaristur frá Noregi og Mön sýna að aðgreiningin er horfin þegar á 10. öld. Heimildir frá 9. öld eru rýrar en benda til að aðgreiningin sé þá enn fyrir hendi.

Vitnisburð rúnanna má bera saman við vitnisburð dróttkvæða. Skáld 10. aldar ríma óspart saman /R/ og upphaflegt /r/, t.d. hugstóran biðk heyra í Velleklu en heyra er á gotnesku hausjan og hefur haft /R/ en ekki /r/. Þegar í Haustlöng Þjóðólfs úr Hvini eru fimm dæmi um slíkt rím en kvæðið er venjulega talið frá um 900. En í því sem varðveitt er af verkum Braga Boddasonar eru engin dæmi um að /R/ og /r/ sé rímað saman. Það virðist því líklegt að aðgreiningin hafi enn verið til staðar á dögum Braga, ef til vill um miðja 9. öld.

Vitnisburður rúna og dróttkvæða er í góðu samræmi og ætti það að styrkja trú okkar á hvort tveggja.


Auður Hauksdóttir (10:00–10:30)

Íslenska í augum Dana um aldamótin 1800

Á síðari hluta átjándu aldar fóru hugmyndir um þjóðerni að ryðja sér til rúms í Danmörku eins og víðar í álfunni og þar gegndi tungan veigamiklu hlutverki. Dönsk tunga þótti standa höllum fæti, ekki síst vegna mikilla áhrifa frá þýskri tungu og menningu. Margir Danir þóttu jákvæðir í garð þýsku en skeytingarlausir um eigin tungu. Með aukinni þjóðernisvitund fóru Danir að spyrna við fótum og leita leiða til að styrkja dönskuna, m.a. að hreinsa hana af þýskum og öðrum erlendum áhrifum, og jafnframt var lögð áhersla á að finna henni hlutverk á sem flestum sviðum þjóðlífsins.

Við endurreisn danskrar tungu var m.a. horft til íslenskunnar sem fyrirmyndar vegna hreinleika hennar og bent á mikilvægi íslensku fyrir danska málsögu, m.a. hvað varðar merkingu orða og orðasambanda og fyrir orðsifjar. Íslenskar fornbókmenntir nutu mikillar virðingar vegna listræns gildis þeirra og þær gegndu lykilhlutverki fyrir mótun dansks og norræns þjóðernis, enda sóttu mörg höfuðskáld Dana til þeirra efnivið og andagift.

Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á stöðu dönsku í Danmörku um aldamótin 1800 og á hlutverk íslensku við mótun dansks þjóðernis. Fjallað verður um jákvæð viðhorf Dana í garð íslensku og áhrif þeirra á stöðu íslensku og dönsku hér á landi. Þá verður skýrt hvernig styrkari staða dönskunnar í Danmörku varð til þess hvort tveggja í senn að styrkja og veikja stöðu dönsku og íslensku hér á landi.


Kristján Árnason (10:30–11:00)

Af signum sérhljóðum og höggnum lokhljóðum

Minnisstæð er mér lýsing Helga Guðmundssonar á því þegar Íslendingar vöknuðu upp við það á 13. öld að það voru signir í þeim vókalarnir, en sú breyting og aðrar tengdar ollu usla í rithætti, sem nota má til að tímasetja þær. Önnur breyting olli usla í kveðskap, nefnilega hljóðdvalarbreytingin, sem raunar er flóknara fyrirbrigði en lengi vel var talið, samanber nýlegar athuganir Þorgeirs Sigurðssonar, Hauks Þorgeirssonar og Aðalsteins Hákonarsonar. Enn ein nýjung, flámælið, var „rekin til baka“, en ef hún hefði „runnið sitt skeið“ hefði samruni sérhljóða kallað á ómælda vinnu við stafsetningarkennslu. Í máli samtímans hafa menn veitt athygli nýjung sem felst í því að sérhljóðið /ɛ/ í orðmyndum eins og bless og  blettur sígur og breytist í fjarlægara [æ], þannig að sambandið bless við blettina tekur að hljóma líkt og blass við blattina. Önnur nýjung sem virðist sækja á í máli yngri málnotenda er það að fella niður munnmyndun óraddaðra lokhljóða á undan nefhljóði, þannig að orð eins og einn, efni og vegna eru borin fram [eiʔn], [ɛʔnɪ] og [vɛʔna] í stað hins hefðbundna framburðar [eitn], [ɛpnɪ] og [vɛkna]. Þetta hefur stundum verið nefnt höggmæli. Svipað gerist á undan /l/ í orðum eins og efla, regla og varla, þótt það sé e.t.v. ekki eins algengt. Önnur breyting sem kann að vera skyld þessu er það þegar greinismyndir fleirtölu í orðmyndum eins og bækurnar, strákarnir eru bornar fram [paiːkʏnar], [strauːkanir]. Ég mun ræða hljóðkerfislegt eðli þessara fyrirbrigða, velta fyrir mér tengslum þeirra innbyrðis, og hugsanleg áhrif á ritmálið og hefðbundin viðmið um framburð.


Guðvarður Már Gunnlaugsson (11:20–11:50)

Nokkur orð um bönd í Konungsbók eddukvæða

Band (abbreviation) er styttingarmerki sem er oftast notað fyrir tvo bókstafi en stundum fleiri og í sumum tilvikum aðeins fyrir einn. Band getur verið smár bókstafur eða titull, sem er skrifaður fyrir ofan annan bókstaf, en getur einnig verið sérstakt tákn sem stendur á skriflínu. Band getur einnig verið punktur á eftir bókstaf eða þverstrik í gegnum hálegg eða síðlegg bókstafs.

Mikið er um bönd og styttingar í miðaldaskrift — og ekki síst í íslenskri skrift. Bönd og styttingar almennt eru af ýmsum toga og má flokka þau á marga vegu. Hreinn Benediktsson flokkar bönd í íslenskri skrift t.d. í fjóra flokka: stýfingu, samdrátt, hástæða bókstafi og sérstök tákn, en Adriano Cappelli flokkar bönd í latínuskrift í sex flokka: stýfingu, samdrátt, styttingarmerki fastrar merkingar, styttingarmerki óskilgreindrar merkingar, hástæða bókstafi og sérstök tákn.

Í fyrirlestrinum verður gefið yfirlit yfir notkun banda í Konungsbók eddukvæða (GKS 2365 4to) og gerð tilraun til að flokka þau á annan hátt en gert hefur verið. Mætti kenna nýju flokkana við grafískt hlutverk, beygingarlega merkingu, fasta merkingu og stýfingu. Einnig verður litið á nokkur handrit frá 12. og 13. öld og athugað hvort þetta nýja flokkunarkerfi við flokkun banda eigi við í fleiri handritum en Konungsbók.


Teresa Dröfn Njarðvík (11:50–12:20)

Ölvis rímur sterka: aldur og bragfræði 

Ölvis rímur sterka er rímnaflokkur sem aðeins er varðveittur í AM 616 d 4to frá miðri 17. öld og NKS 1133 fol. frá fyrri hluta 18. aldar. Þá er varðveitt brot af síðustu rímu flokksins á einu blaði í Hólsbók, skinnhandriti frá 16. öld. Flokkurinn í NKS 1133 fol. virðist vera afritaður eftir Hólsbók, en mikill munur er á textanum í AM 616 d 4to og NKS 1133 fol. Svo virðist sem rímnaflokkurinn hafi snemma ratað inn í munnlega geymd og tekið þar breytingum, svo á 15. öld hafi verið til tvær ólíkar útgáfur af Ölvis rímum sterka. Síðar, um miðja 17. öld var rímunum snúið yfir í prósagerð, en margt bendir til þess að efnið í rímunum hafi verið til í prósagerð sem nú er glötuð og rímurnar byggðu á. Ölvis rímur sterka er því dæmi um sagnaefni sem færðist úr prósagerð yfir í rímur og svo aftur úr rímum yfir í nýja prósagerð.

Erfitt er að greina aldur rímnaflokka með einhverri vissu, og nánast ógerlegt að ákvarða nákvæman aldur einstakra flokka. Það eru ekki nægar heimildir til þess að skera úr um aldur flokka en vel er hægt að leiða líkur að aldri þeirra og ramma þá inn við ákveðin tímabil með því að skoða bragfræði og málstig rímna ítarlega. Með nákvæmri athugun á texta Ölvis rímna sterka í öllum varðveittum textavitnum gefast margar vísbendingar þess að flokkurinn eigi uppruna sinn á öðru skeiði rímna, og sé ortur í kring um 1400 og líklegst ekki seinna en 1450. Líkast til mætti skipa Ölvis rímum sterka í sess með elstu rímum.


Jón G. Friðjónsson (13:30–14:10)

Kerfisbundnar breytingar á forsetningum í íslensku

Merking eða vísun forsetninga getur verið nokkuð flókin. Til einföldunar verður hér einungis gert ráð fyrir tveimur þáttum, eigin merkingu (orðfræðilegri merkingu) annars vegar og hlutverksmerkingu hins vegar. Með eigin merkingu er átt við orðfræðilega merkingu forsetninga, t.d. fyrir, eftir, undan, á, í o.s.frv. Með hlutverksmerkingu (e. function) er átt við að fs. geta t.d. vísað til hreyfingar (á/af stað; í/úr stað), kyrrstöðu (dvalar) eða tíma en það sem má kalla afstöðumerkingu en hana má sýna með eftirfarandi hætti (A):

A         á undan e-m                 [tími]                       á eftir

            á eftir                               [staður]                   á undan e-m

[staður]                   undan e-u ➚

Af myndinni má ráða að merking fs./ao. á eftir er tvenns konar eftir því hvort hún vísar til tíma eða staðar (raðar) og sama á við um fs. á undan.

Í erindi mínu mun ég leitast við að sýna með dæmum að kerfi A hafi litið svo út í elsta máli:

B          fyrir mér                      [tími]                       eftir mér

eftir mér                       [staður]                   fyrir mér

[staður]                   undan e-u ➚

Síðan mun eg sýna að kerfið hafi breyst í grundvallaratriðum og geri ráð fyrir fjórum stigum (ferns konar breytingum). Í öllum tilvikum mun ég tefla fram aldursgreindum dæmum þessu til stuðnings. Ég mun leitast við að varpa ljósi á eðli breytinganna, skýra hvers vegna þær áttu sér stað og hvenær. Fyrsta breytingin undan ➚ > undan ➙ raskaði kerfinu því að með henni féllu saman  fyrir ➙ og undan ➙ og olli hún nokkurs konar keðjubreytingu.

C          fyrir mér                           [tími]                       eftir mér

eftir mér                           [staður]                   undan mér

Næstu þrjár breytingar eru í raun bein afleiðing af fyrstu breytingunni. Önnur breyting: fyrir e-m (tími) > undan e-m (tími).

D         undan mér                        [tími]                       eftir mér

eftir mér                           [staður]                   undan mér

Þriðja breyting: eftir (staður) > á eftir:

E          undan mér                      [tími]                       eftir mér

á eftir mér                       [staður]                   undan mér

Fjórða breyting: undan > á undan.

F          á undan mér                    [tími]                       eftir mér

á eftir mér                        [staður]                   á undan mér

Í fimmta og síðasta lagi mun ég leitast við að sýna fram á að breytingaferlinu sé í raun ekki lokið enda megi sjá hvert stefnir og hvers vegna. Þessi fullyrðing verður treyst með dæmum (343).


Jón Axel Harðarson (14:10–14:50)

‘Nakinn’ í germönsku og fornnorrænu: (F)ísl. nökkviðr, nökkrnökkva og nakinn

Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir forsögu og þróun þessara orða. Nokkur vandamál tengjast hljóðafari og orðmyndun þeirra. Vitnisburður norrænna mála verður borinn saman við vitnisburð annarra germanskra og indóevrópskra mála. Loks verður þróun orðanna rakin frá forsögulegum tímum til fornnorrænu og íslensku.


Helgi Skúli Kjartansson (15:10–15:40)

Um hugtakið SPROTA hjá goðum og mönnum

Hversu langt má ganga í tilgátum um málsögu til þess að koma í snyrtilega heild þekkingaratriðum af allt öðrum sviðum? Fremur en svara þeirri stóru spurningu verður hún reifuð í erindinu út frá þeirri freistingu fyrirlesara að gefa sér ákveðna merkingarþróun orðsins SPROTI til að koma heim og saman vissum atriðum um goðið Óðin og forna tækni við skógarnytjar.

Í fornum textum eru allvíða nefndir sprotar, stundum sem veldissprotar (þá jafnvel gullsprotar eða tálknsprotar eða úr fílabeini) eða töfrasprotar. Sprota bera t.d. Óðinn sjálfur og fulltrúar hans (Starkaður gamli, Bragi skáld). Getur sproti Óðins verið laufsproti en líka reyrsproti, og má spyrja hvort það tengist reynslu Óðins „er ek í reyri sat / ok vættak míns munar.“

Einnig koma sprotar fyrir í hversdagslegu samhengi, sem göngustafir, barefli eða hluti af húsbúnaði, jafnvel einhvers konar hjalli. En ekki augljóst hvað þeir eiga sameiginlegt með sprotum goðsagna og ævintýra.

Sproti á orðsifjar sem benda til frummerkingarinnar ‘spíra, vaxtarsproti’.

Ástæða er til að benda á sérstaka tegund vaxtarsprota sem mjög kom við sögu skógarnytja á fyrri öldum, m.a. á Norðurlöndum. Það eru teinungar (viðarteinungar eins og Mistilteinn!) sem vaxa upp af stýfðum stofni trjáa, einkum lauftrjáa. Þeir eru ræktaðir með því að stýfa tré með hæfilegu millibili eftir því til hvaða nytja teinungarnir eru. Grannir teinungar eru skornir til að fóðra búféð á laufinu – laufsprotar. Af vissum trjám eru ungir teinungar nógu sveigjanlegir til að flétta með þeim eða binda – þ.e. reyra, reyrsprotar. Gildir teinungar voru (og eru enn í „orkuskógum“ nútímans) hentugasti viðurinn til kyndingar og kolagerðar. Fyrir daga véltækninnar var líka ólíkt hægara að nota teinunga í hvers kyns stangir, prik og handföng en að vinna slíkt niður úr stórviðum – sbr. sprota nokkurn í Flateyjarbók sem „hefti“ voru „skoruð af“.

Nú vildi fyrirlesari mega trúa að á einhverju stigi hafi orðið sproti einkum verið haft um þessa nytsamlegu teinunga af skógartrjám, jafnframt um þær viðjur, stangir eða prik sem úr þeim voru gerð, síðan um sams konar hluti af öðrum efniviði, eins og gullsprota ævintýrakónganna.

Sú niðurstaða kynni jafnvel að gefa vísbendingar um kyn Mistilteins og um setu Óðins í reyrnum. En er hún nægilega undirbyggð sem málsaga?


Aðalsteinn Hákonarson (15:40–16:10)

Gömul regla í nýju kerfi: táknun sérhljóða í forníslenskri stafsetningu

Þegar fyrst var farið að rita íslensku með latínuletri var sérhljóðakerfi málsins þannig að hverju stuttu sérhljóði samsvaraði langt hljóð með því sem næst sama hljóðgildi, en utan við þetta kerfi hljóðgildissamsvarana stóðu gömlu tvíhljóðin, au, ei og ey. Ein meginregla íslenskrar stafsetningar til forna var að hljóðstafir (sérhljóðstákn) táknuðu hljóðgildi óháð hljóðlengd. Að vísu eru löng sérhljóð stundum aðgreind frá stuttum í fornum handritum, en til þess var notast við stafmerki á borð við brodda eða við tvíritun hljóðstafa. Sjálfur hljóðstafurinn stóð hins vegar fyrir tiltekið hljóðgildi, fleiri en eitt í ákveðnum tilvikum. Þessi meginregla virðist hafa haldið gildi sínu þrátt fyrir miklar breytingar sem urðu á sérhljóðakerfinu á 12. og 13. öld. Á sama tíma áttu sér stað breytingar á stafsetningu sem hægt er að túlka sem birtingarmyndir gömlu meginreglunnar í breyttu kerfi sérhljóða. Í erindinu verða skoðaðar ólíkar breytingar á stafsetningu sem hægt virðist að skýra með tilliti til meginreglunnar um að hljóðstafir tákna hljóðgildi en ekki hljóðlengd.


Þorgeir Sigurðsson (16:10–16:40)

Persnesk atkvæði í kviðuhætti

Í grískum og latneskum kveðskap er aðeins gerður greinarmunur á léttum og þungum (stuttum og löngum) atkvæðum en í norrænum og persneskum kveðskap eru þrjár atkvæðagerðir. Segja má að í persnesku og norrænu séu atkvæði með einni móru, tveimur mórum og þremur mórum. Móra er ein lengdareining (eitt stutt samhljóð eða stutt sérhljóð).

Í fyrirlestrinum ber ég saman atkvæðaskiptingar í persneskum og norrænum kveðskap og ég fer yfir reglur um notkun atkvæða í brag. Í umræðu um norrænan brag er deilt um hvernig skipta eigi orðum eins og búa og búra í atkvæði og ég ræði hvernig það deilumál birtist í persneskri braggreiningu.