2. Ólafsþing 2018 — ágrip erinda

Þórhallur Eyþórsson (9:30–10:00)

Rasmus Rask og almenn málvísindi

Í verðlaunaritgerð sinni (Undersögelse om det gamle nordiske eller islandske Sprogs Oprindelse, 1818) einsetti Rasmus Rask sér að grafast fyrir um uppruna íslensku en lagði í leiðinni grunn að indóevrópskri samanburðarmálfræði. Eins og frægt er var þar m.a. sett fram tilgáta um samsvaranir á milli samhljóðakerfis germanskra mála og annarra indóevrópskra mála sem síðar fengu nafnið germanska hljóðfærslan. Verðlaunaritgerðin er þó ekki aðeins upphafspunktur samanburðarmálfræði heldur er framlag hennar margslungnara og almennara. Í þessu erindi verður fjallað um þætti í verki Rasks sem hafa almennt gildi fyrir rannsóknir á mannlegu máli, bæði út frá nákvæmum lestri á verðlaunaritgerðinni sjálfri og umfjöllun annarra fræðimanna, einkum Holgers Pedersens (1931, 1932). Hér er tekið undir með Pedersen sem taldi að fyrsti kafli ritgerðarinnar væri frumlegasti hluti hennar því að þar væri í fyrsta sinn gerður greinarmunur á fræðilegum og hagnýtum röksemdum í málvísindum. Í fræðilega hlutanum er sett fram rannsóknaráætlun til að tryggja að hægt sé að bera saman það sem er sambærilegt í tungumálum, en hagnýti hlutinn hefur að geyma lýsingu á einstökum tungumálum í samræmi við markmið höfundar. Eitt merkilegasta atriðið í þessu samhengi er sá greinarmunur sem hér er gerður á lýsandi umfjöllun um tungumál annars vegar og almennari hugmyndum um eðli tungumálsins hins vegar. Til viðbótar því sem hér hefur verið rakið verður farið í saumana á röksemdum Pedersens um önnur aðferðafræðileg nýmæli hjá Rask. Þannig varð Rask fyrstur til að setja þá hugmynd skýrt fram að til að ákvarða skyldleika tungumála væru málfræðilegar samsvaranir meginatriði en samsvaranir í orðaforða skiptu síður máli (þar sem orð bærust auðveldlegar frá einu tungumáli til annars en kerfiseiningar). Að auki birtist hjá honum skilningur á ýmsum grundvallaratriðum í málvísindum sem orka „nútímaleg“ á lesandann, svo sem að málblöndun leiði til einföldunar, að orðasafni megi skipta í grundvallarorðaforða og sérhæfðari orðaforða og að rök séu fyrir því að setja fram almenn – jafnvel algild – lögmál um hljóðbreytingar. Síðast en ekki síst er að nefna stutta en áhugaverða kafla um mál sem ekki teljast til indóeverópsku málaættarinnar: finnsku, grænlensku og basknesku, auk „asískra“ mála (m.a. hebresku og arabísku). Ályktað er út frá umfjöllun Pedersens og annarra fræðimanna að Rasmus Rask sé ekki aðeins frumkvöðull indóevrópskrar samanburðarmálfræði heldur líka málvísinda í víðtækari skilningi.


Svavar Sigmundsson (10:00–10:30)

„því eigum við sjálfir að skemma ockar túngumál og gjöra háð að sjálfum oss?“ — Rask og málhreinsunarstarf hans

Rasmus Rask hóf að stunda málhreinsun móðurmáls síns, dönskunnar, þegar 1806 þá 19 ára. Hann komst snemma á þá skoðun eftir að hann kynntist íslensku að hún yrði að forðast að taka upp orð úr erlendum málum. Rask leit á Ludvig Holberg sem fyrirmynd þeirra sem vildu skrifa vandað mál og læsilegt. Hann áleit að Íslendingar þyrftu á slíkum manni að halda sem gæti endurskapað íslenska ritmálið með góðum stílshætti og hugsaði sér að Grímur Jónsson síðar amtmaður gæti verið sá maður.  Rask hvatti hann til að rita á íslensku og verða þannig föðurlandi sínu að gagni. Fyrsta bókin sem hið nýstofnaða íslenska Bókmenntafélag gaf út og að frumkvæði Rasks var Almenn jarðarfræði og landaskipan eður geographia sem út kom 1821-1827.  Grímur hafði tekið að sér að skrifa fyrsta hluta ritsins og vann við það á árunum 1817-19 en það ár flutti hann til Íslands. Hann afsalaði sér þá verkinu og sömdu Þórður Sveinbjörnsson síðar dómstjóri og Gunnlaugur Oddsson dómkirkjuprestur það sem eftir var. Grímur taldi sig ekki kunna málið nægilega vel eftir langdvalir erlendis til þess að skrifa það svo hreint að til fyrirmyndar væri. Allmikil bréfaskipti urðu á milli Rasks og Gríms um landafræðina og kortin sem fylgdu og verður rakið nokkuð af skoðanaskiptum þeirra um málið en hugmyndir Rasks um málhreinsun koma þar skýrt fram.


Kristján Árnason (11:00–11:30)

Um banamein tungumála

Tungumál sem hverfa úr þessum heimi þegar síðustu málhafar þeirra gefa upp öndina eru í útrýmingarhættu. Engar nýjar kynslóðir læra þessar tungur í æsku og hafa sem móðurmál. Oft eru þessi deyjandi mál án rithefðar, og vitneskja um þau varðveitist helst í lýsingum málfræðinga og mannfræðinga sem sýna formi þeirra og arfleifð áhuga. Þau verða að öðru leyti heiminum gleymd. Íslenska er ekki í þessari stöðu; samt hafa menn spáð dauða hennar. Rasmus Kristján Rask spáði því að danska tæki við af íslensku eftir þrjú hundruð ár frá spádómsdegi, og Eiríkur Rögnvaldsson hefur varað við stafrænum dauða hennar. Þriðja dauðaspáin sem ég mun ræða hér er verk Eggerts Ólafssonar Sótt og daudi Islenzkunnar, hinnar afgömlu móður vorrar; í tveimur kvæðum framsett. Áhugaverður munur er á dauðaspánum þrem. Annars vegar spá Rask og Eiríkur ósigri gagnvart erlendum innrásaraðila, dönsku ellegar ensku. Eggert lætur tunguna hins vegar veslast upp og deyja af innanmeini vegna lélegrar málnotkunar barna sinna. Eiríkur og Rask horfa sem sé á stöðuvanda, en Eggert á formvanda. Í kvæðinu lýsir Eggert því hvernig tungan veslast upp og deyr af iðrameini. Á banabeði segir hún fyrir um útför sína. Þegnarnir skuli flá hana og gera sér mat úr innvolsinu. Úr skinninu eru gerðar trumbur sem slegnar eru í útfararveislunni, sem fer fram með miklum „hátíðarbrag“.


Haukur Þorgeirsson (11:30–12:oo)

Glíman við Snorra-Eddu: Frá 1818 til 2018

Útgáfa Rasks á Snorra-Eddu 1818 markaði tímamót. Þar var Snorra-Edda í fyrsta skipti prentuð í formi sem ætla má að fari nærri upphaflegri gerð verksins. Rask lagði textann í Konungsbók (GKS 2367 4to) til grundvallar en raunar má segja að varðveisla þess texta hafi þá hangið á bláþræði. Elstu uppskriftir Konungsbókar glötuðust í eldinum 1728 og á dögum Rasks var handritið sjálft talið glatað. Rask hafði þó undir höndum uppskrift textans eftir Ísleif Einarsson (1765-1836). Þessa uppskrift taldi Rask mjög nákvæma og var það með réttu. Seinna kom svo Konungsbók sjálf aftur í leitirnar og býr núna í Árnagarði.

Í erindinu verður fjallað um vandann við að gefa út Snorra-Eddu og hvernig útgefendur hafa leyst úr honum. Auk útgáfu Rasks verður fjallað stuttlega um útgáfur Finns Jónssonar og Anthony Faulkes. Eins og Rask lögðu Finnur og Faulkes texta Konungsbókar til grundvallar en þeir höfðu mismunandi viðmið um það hvenær leiðrétta ætti textann eftir hinum handritunum. Finnur lagði til grundvallar ættartré handrita sem veitt gæti að nokkru leyti sjálfvirka aðstoð til að leiðrétta textann. Faulkes taldi hins vegar óráð að leggja stemma til gundvallar og taldi að best væri að leiðrétta textann aðeins þar sem texti aðalhandritsins hefði ekki skynsamlega merkingu. Hvorugur fylgdi þó sinni yfirlýstu aðferð út í æsar enda hafa þær báðar kosti og galla.

Síðan 2016 hef ég stýrt rannsóknar- og útgáfuverkefni um Konungsbók Snorra-Eddu. Í erindinu greini ég frá sumu af því sem ég hef orðið vísari og því sem mér þykir enn vera ógert í textafræði Snorra-Eddu.


Þorgeir Sigurðsson (12:00–12:30)

Rasmus Kristian Rask og Arinbjarnarkviða

Í riti sínu frá árinu 1818 um norræna fornmálið [1] lagði Rask til leiðréttingu á texta Arinbjarnarkviðu 8.5–8.8 sem var:  ok sá muðr es mína bar hefð fyrir hilmis kné.  Rask lagði til að í stað hefð kæmi nafnið á kvæðinu hǫfuðlausn. Öllum hefur litist vel á þessa leiðréttingu. Í fyrirlestrinum fer ég yfir þau sterku rök sem eru fyrir því að leiðrétting Rask sé réttmæt. Í útgáfu sinni sama ár á málfræðiritgerðunum í Wormsbók [2] skrifaði Rask í neðanmálsgrein að línuparið: í herská / hilmis garði kæmi úr Arinbjarnarkviðu. Útgefendum kviðunnar hefur ekki litist jafnvel á þessa tilgátu hans en hér ræði ég hvers vegna þetta gæti verið rétt hjá Rask.

[1] Rask, Rasmus Kristian. 1818a. Anvisning till Isländskan eller Nordiska Fornspråket. Wiborg, Stockholm, bls. 260.

[2] Rask, Rasmus Kristian (ed.). 1818b. Snorra-Edda, ásamt Skáldu og þarmeð fylgjandi ritgjörðum. Rask, Stockholm, bls. 329.


Katrín Axelsdóttir (13:30–14:00)

Breytt hlutverk nokkurra óákveðinna fornafna

Óákveðin fornöfn sem þýða má með ensku fornöfnunum some, any og no (og öðrum áþekkum) eru áhugaverður hópur orða. Tvennt við þessi fornöfn er einkum athyglisvert. Í fyrsta lagi er innbyrðis afstaða þeirra (eða hlutverkadreifing) gríðarlega mismunandi milli mála og í öðru lagi er þessi afstaða mjög óstöðugt fyrirbæri. Fram á þetta sýndi Martin Haspelmath (1997) í yfirgripsmikilli rannsókn þar sem borin voru saman með tilliti til þessa fjörutíu tungumál, þar á meðal íslenskt nútímamál. Samanburðurinn byggist á myndrænni framsetningu níu hlutverka fornafna: hlutverk 1: tiltekið og þekkt (e. specific, known), hlutverk 2: tiltekið og óþekkt (e. specific, unknown), hlutverk 3: óraunverulegt og ótiltekið (e. irrealis, non-specific), hlutverk 4: spurning (e. question), hlutverk 5: skilyrði (e. conditional), hlutverk 6: óbein neitun (e. indirect negation), hlutverk 7: bein neitun (e. direct negation), hlutverk 8: samanburður (e. comparative), hlutverk 9: valfrelsi (e. free-choice).

Í fyrirlestrinum verður rannsókn Haspelmath stuttlega reifuð, mat lagt á greiningu hans á íslensku og hún endurskoðuð. Þá verður nálgun hans beitt til að kortleggja hlutverkadreifingu fornafnanna nokkur, einhver, neinn og engi (nú enginn) í forníslensku og hún borin saman við nútímamál. Samanburðurinn leiðir í ljós að allmargt hefur breyst: notkunarsvið nokkur, neinn og engi(nn) hefur dregist saman, svið einhver er nú svolítið annað en áður og tíðni þess fornafns hefur snaraukist í ýmsum hlutverkum. Þá hefur komið upp verkaskipting nokkur og einhver í spurnarsetningum og jafnvel líka skilyrðissetningum (einhver er notað ef væntingar eru jákvæðar eða hlutlausar en nokkur ef þær eru neikvæðar) en þessarar verkaskiptingar gætti ekki í fornu máli.


Guðrún Þórhallsdóttir (14:00–14:30)

Sjö daga fasta í röku

Forsetningarliðurinn í rǫku er þekktur úr einni fornri heimild, Jóns sögu postula, þar sem segir af skiptum Jóhannesar við heiðingjann Aristodemus. Þetta stakdæmi má kalla tvírætt bæði að formi og merkingu. Ritháttinn má túlka á fleiri en einn veg og endingin -u gæti bæði átt við þágufall eintölu kvenkyns nafnorðs og þágufall eintölu hvorugkyns í sterkri lýsingarorðsbeygingu. Því kemur ekki á óvart að fjallað er um físl. í rǫku á ólíkan hátt í handbókum. Þótt fræðimenn virðist almennt sammála um að tengja orðmyndina rǫku við frumgermanska lýsingarorðið *raka- ‘beinn’ og skyld orð hafa þeir greint myndina á ólíka vegu. Upplýsingar handbóka um orðasambandið í rǫku og skyld eða lík orð eru einnig að sumu leyti villandi.

Í fyrirlestrinum verður leitast við að varpa ljósi á sögu forsetningarliðarins í rǫku með því að grafast fyrir um merkingu hans og uppruna. Annars vegar verða þrjár hugsanlegar orðsifjaskýringar kynntar og bornar saman við hina viðteknu skýringu. Hins vegar verður tekist á við valið á milli þess að túlka orðmyndina rǫku sem þágufall kvenkynsorðsins raka* og sem þágufallsmynd hvorugkyns lýsingarorðsins rakr*.


Jón Axel Harðarson (14:30–15:00)

Um meinta hljóðbreytingu kwe > ko í norrænu og frumgermanska fyrirrennara íslensku orðanna koma og kona

Samkvæmt hefðbundinni skoðun eru norrænu orðin koma og kona komin af frumgermönskum myndum með hvarfstigi rótar. Tilsvarandi orð í gotnesku, qiman og qino, sýna hins vegar e-stig sömu róta. Í seinni tíð hafa sumir fræðimenn gert því skóna að norrænu orðin séu komin af sömu frumgermönsku myndum og hin gotnesku; hefur sú kenning verið sett fram að í norrænu hafi kwe sætt kringingu og orðið að kwo sem síðar hafi breyst í ko. Í fyrirlestrinum verður mat lagt á þessa kenningu.


Guðvarður Már Gunnlaugsson (15:30–16:00)

Hvers vegna skipti Einar Hafliðason milli textaskriftar og léttiskriftar í Lögmannsannál?

Í þessum fyrirlestri ætla ég að ræða um handritið AM 420 b 4to sem hefur að geyma Lögmannsannál. Einar Hafliðason skrifaði megnið af honum um eða upp úr 1360; hönd hans er einnig á nokkrum fornbréfum. Þetta handrit er elsta frumrit íslensks höfundar sem varðveitt er, að því best er vitað. Lögmannsannáll er einnig merkilegur vegna þess að skrifarinn skiptir á milli textaskriftar og léttiskriftar sem aðrir skrifarar gera nánast aldrei í sama handritinu. Tilviljun virðist ekki ráða þessum skiptum en ekki er ljóst hver ástæðan fyrir þeim er. Ég ætla að leggja fram hugsanlega skýringu og jafnframt að athuga hversu staðfastur Einar var í að fylgja þeirri reglu sem hann hafði sett sér.


Bjarni Gunnar Ásgeirsson (16:00–16:30)

Endurskoðun á sambandi þriggja handrita Snorra-Eddu

Skiptar skoðanir eru á innbyrðis tengslum handrita Snorra-Eddu en flestir eru hallir undir þá skoðun að í grófum dráttum megi skipta aðalhandritunum fjórum í tvo hópa, í öðrum séu Konungsbók, Wormsbók og Trektarbók en í hinum Uppsalabók. Að minnsta kosti sex fræðimenn hafa teiknað upp ættarskrá handrita (eða stemma) Snorra-Eddu: Edzardi (1876), Mogk (1879), Müllenhoff (1883), van Eeden (1913), Boer (1924) og Finnur Jónsson (1931). Aðeins þeir þrír síðastnefndu hafa fjallað sérstaklega um samband Konungsbókar, Wormsbókar og Trektarbókar, enda varð mikilvægi Trektarbókar ekki ljóst fyrr en seint á 19. öld. Að sumu leyti stangast skoðanir þremenninganna á: Hollendingarnar van Eeden og Boer eru sammála um að samband Konungsbókar og Trektarbókar sé náið; þær séu systur en Wormsbók frænka þeirra. Aftur á móti lítur Finnur Jónsson (1931) svo á að Konungsbók og Wormsbók séu systur og að Trektarbók sé frænkan. Haukur Þorgeirsson (2017) hefur nýlega tekið undir skoðanir Hollendinganna. Hann segir að röksemdir þeirra séu sterkar og bendir á að ósamræmi er á milli ættarskrár Finns og umfjöllunar hans um samband handritanna, en ólíkt van Eeden og Boer útskýrði Finnur ekki ættarskrá sína með ýtarlegri greinargerð. Þrátt fyrir annmarka á ættarskrá Finns tel ég hann þó hafa nokkuð til síns máls — ýmislegt bendir til að Konungsbók og Wormsbók séu nánari en Konungsbók og Trektarbók. Í fyrirlestrinum mun ég fara yfir fyrri rannsóknir og færa rök fyrir því að ættarskrá Finns Jónssonar lýsi sambandi þessara þriggja handrita betur en ættarskrár van Eedens og Boers.


Auður Hauksdóttir (fellur niður)

Viðhorf Rasks til íslenskrar tungu

Tímamótaverk Rasmusar Kristians Rasks Vejledning til det islandske eller gamle nordiske sprog kom út í Kaupmannahöfn árið 1811, en var síðar (1832) gefið út í styttri og nokkuð breyttri mynd undir heitinu Kortfattet vejledning til det islandske eller nordiske sprog.

Í frumútgáfunni, sem inniheldur 6 kafla auk ítarlegs inngangs, fjallar Rask um íslenska tungu út frá ólíkum sjónarhornum: hljóðfræði og réttritun (udtale og retskrivning), beygingarfræði (formlære), orðmyndun (orddannelse), setningarfræði (ordføjning), bragfræði (verslære) og sögulegri þróun íslenskunnar í samanburði við aðrar tungur (om sprogarterne). Í innganginum ræðir Rask um notagildi tungumála og þá sérstaklega mikilvægi íslensku og íslenskukunnáttu fyrir Dani.

Talsvert hefur verið rætt og ritað um málfræðihluta bókar Rasks, en aftur á móti hefur viðhorfum hans til notagildis íslenskunnar og eiginleika hennar í samanburði við aðrar tungur verið minni gaumur gefinn. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessi viðhorf Rasks til íslensku og íslenskukunnáttu, eins og þau birtast í umræddri bók og nokkrum bréfum hans til lærðra manna. Þá verður gerð grein fyrir skoðunum hans á margvíslegu notagildi íslenskunnar fyrir Dani.

Loks verður rætt hvernig viðhorf Rasks endurspegla það mikilvæga hlutverk sem íslensk tunga og fornbókmenntir gegndu við myndun dansks þjóðernis um aldamótin átján hundruð.