Lög félagsins

 1. grein

Félagið heitir Mál og saga, félag um söguleg málvísindi og textafræði. Heimilisfang þess og varnarþing er í Reykjavík.

 1. grein

Félaginu er ætlað að vera vettvangur fyrir söguleg málvísindi og textafræði á málvísindalegum grunni. Það stendur fyrir árlegri ráðstefnu en á vegum þess eru einnig haldnir fundir eða málstofur nokkrum sinnum á ári. Þar gefst mönnum kostur á að flytja erindi um efni sem tengjast ofangreindum fræðasviðum eða kynna rannsóknir sínar. Markmið félagsins er ekki síst að stuðla að því að áhugamenn um söguleg málvísindi og textafræði hittist reglulega og myndi eða efli tengsl sín á milli.

 1. grein

Félagið er opið áhugamönnum um söguleg málvísindi og textafræði. Þó er aðild að félaginu bundin því að félagsgjald hafi verið greitt fyrir aðalfund.

 1. grein

Aðalfund skal halda ár hvert á öðrum ársfjórðungi. Til hans skal boðað með minnst viku fyrirvara með tölvupósti til félagsmanna. Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa fullgildir meðlimir félagsins. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála nema þegar um er að ræða breytingar á lögum, sbr. 9. og 11. gr. Á aðalfundi skal stjórn félagsins skýra frá störfum þess á liðnu ári og leggja fram endurskoðaða reikninga og eignaskrá til athugunar og samþykktar. Aðalfundi stýrir kjörinn fundarstjóri sem skal í upphafi kanna lögmæti fundar. Halda skal fundargerð um aðalfund og skulu fundarstjóri og fundarritari undirrita hana.

 1. grein

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra
 2. Skýrsla stjórnar
 3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar
 4. Lagabreytingar
 5. Ákvörðun félagsgjalds
 6. Kjör stjórnar
 7. Önnur mál
 1. grein

Stjórn félagsins getur boðað til almenns fundar að gefnu tilefni. Stjórninni er einnig skylt að boða til almenns fundar ef fimm eða fleiri félagsmenn fara þess á leið. Til almenns fundar skal boða með viku fyrirvara.

 1. grein

Fyrir félaginu ræður stjórn fjögurra aðalmanna, formanns, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda, og eins varamanns. Stjórn er kjörin úr röðum félagsmanna á aðalfundi. Á aðalfundi skal einnig kjósa einn skoðunarmann reikninga og einn til vara.

 1. grein

Stjórn félagsins tekur ákvarðanir um starfsemi og rekstur félagsins og framfylgir samþykktum aðalfundar. Ef um er að ræða ágreining um mál innan stjórnar vegur atkvæði formanns tvöfalt á við atkvæði annarra stjórnarmanna. Skýrsla um stjórnarfundi skal skráð í gerðabók og skulu ritari og formaður undirrita hana. Fundargerð skal vera fullgild sönnun þess sem farið hefur fram á fundinum.

 1. grein

Lögum félagsins má ekki breyta nema á aðalfundi enda sé lagabreytingartillagan kynnt í fundarboði. Til lagabreytingar þarf samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna.

 1. grein

Árgjald félagsmanna skal ákveðið á aðalfundi hvert ár og annast gjaldkeri innheimtu þess eftir félagsskrá sem stjórn félagsins skal halda. Félagsgjöldum skal verja til reksturs félagsins og starfsemi sem samræmist tilgangi félagsins, sbr. 2. grein.

 1. grein

Komi fram tillaga um að slíta félaginu, fer um þá tillögu sem um lagabreytingartillögu, sbr. 9. gr., að öðru leyti en því að þá þurfa 3/4 atkvæðisbærra fundarmanna að samþykkja tillögu um slitin. Hið sama gildir um samruna eða sameiningu félagsins við annað félag. Verði slíkar tillögur samþykktar skal hreinni eign félagsins ráðstafað í samræmi við markmið félagsins, sbr. 2. gr., og samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar, þó ekki til félagsmanna.

 

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi, 16.06.2017. Breytingar samþykktar á aðalfundi 12.05.2018.